Bitcoin staðfestingar (e. confirmations) og hvernig þær virka

Þegar þú leggur Bitcoin inn á Myntkaup þá þarftu að bíða eftir þremur staðfestingum áður en upphæðin birtist á reikningnum þínum. Þegar Bitcoin færsla er send þá er hún fyrst um sinn óstaðfest. Grafarar safna óstaðfestum færslum saman og bæta þeim við í blokkir. Þegar færslu hefur verið bætt við í blokk þá er hún sögð staðfest. Fyrst um sinn hefur færslan eina staðfestingu, en staðfestingunum fjölgar þegar fleiri blokkum er bætt við í kerfið. Á meðan færsla hefur fáar staðfestingar er möguleiki á því að hún verði bakfærð, en eftir því sem staðfestingunum fjölgar þeim mun ólíklegra verður það og eftir þrjár staðfestingar er það almennt talið ómögulegt. Þess vegna leggjum við Bitcoin inn á reikninginn þinn eftir þrjár staðfestingar.

Nýjum blokkum er að meðaltali bætt við í kerfið á 10 mínútna fresti, þ.a. þrjár staðfestingar taka að meðaltali um 30 mínútur. Eftir að þú leggur Bitcoin inn á Myntkaup geturðu því átt von á því að bíða í hálftíma áður en upphæðin birtist á reikningnum þínum. Hins vegar getur það gerst að blokkir myndast hægar en á 10 mínútna fresti og því er gott að gera ráð fyrir allt að klukkutíma bið eftir þremur staðfestingum.

Svaraði þetta spurningunni þinni? Takk fyrir endurgjöfina Upp kom villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.